top of page

Arion banki - Verðbólgan skiptir um gír


Greiningardeild Arion banka

Við spáum 0,6% hækkun á vísitölu neysluverðs í október sem er í takt við bráðabirgðaspá okkar frá því í lok september. Samkvæmt spánni hækkar 12 mánaða taktur verðbólgunnar í 2,9% úr 2,7% frá því í síðasta mánuði. Hagstofan mælir vísitöluna 8. til 12. október og mælingin verður birt mánudaginn 29. október.


Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka
Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Verðbólguspáin nú gerir ráð fyrir því að mánaðartaktur verðbreytinga sé að breytast. Gangi spáin eftir þá hefur mánaðarhækkun vísitölu neysluverðs ekki verið hærri síðan í júní á þessu ári. Munurinn liggur í því að nú gerum við ráð fyrir hækkun á nær öllum undirvísitölum en í júní báru tvær undirvísitölur þungann af verðhækkununum, þ.e. flugfargjöld og fasteignaverð. Undanfarna ársfjórðunga hefur verðbólgan verið að breytast. Þar til í apríl á þessu ári var ársverðbólga án húsnæðis neikvæð en hefur síðan farið hratt hækkandi sem bendir til þess að liðir sem höfðu verðhjöðnunaráhrif þar til fyrir stuttu eru farnir að ýta verðlagi upp á við. Á sama tíma hefur dregið úr hækkunum á fasteignaverði en þar sem fasteignaverðið er enn að hækka þá leiðir þessi þróun til hækkandi verðbólgu.


Veiking íslensku krónunnar er stór áhrifaþáttur í verðbólguspánni nú og verður það næstu mánuði í það minnsta nema að krónan styrkist snögglega. Einnig er líklegt að verðlag erlendis hafi áhrif á innflutta verðbólgu en sem dæmi þá stendur verðbólga í Bandaríkjunum í 2,7% en fyrir ári nam verðbólgan 1,9%. Verðbólgan þar í landi hefur farið hækkandi undanfarin ár eftir að hafa farið lægst í 0% árið 2015. Þar sem hækkandi innflutningsverðlag og veiking krónu leiða til hækkandi verðlags á innfluttum vörum, þá versnar samkeppnisstaða þessara vara gagnvart innlendum vörum sem getur leitt til að innlend framleiðsla hækki verð, þar sem verðhjöðnunarþrýstingur erlendra vara er horfinn. Áhrifin geta því verið meiri en sem nemur veikingu krónu margfaldaðri með hlutfalli innfluttra vara í körfu Hagstofunnar.


Samkvæmt verðbólgulíkani Greiningardeildarinnar má gera ráð fyrir meiri verðbólgu í október og næstu mánuði en við erum að spá. Krónan hefur veikst svo hratt sem gæti gengið tilbaka. Einnig benda mælingar okkar á netinu að verð bíla hafi haldist nær óbreytt undanfarin mánuðinn sem bendir til að aðilar sitji á birgðum sem keyptar voru inn þegar krónan var sterkari og veikingin því ekki farin að koma fram í hækkandi verðlagi. Spurningin nú er hversu hratt veiking krónunnar kemur fram í hækkandi innflutningsverðlagi og hvort að krónan styrkist, haldist óbreytt þar sem hún er nú eða þá veikist enn meira. Ef veikingin gengur ekki til baka að einhverju leyti gæti bráðabirgðaspáin okkar reynst full hófsöm.


Það sem einkennir verðbólguspána er að vænta má þess að allar undirvísitölur hækki á milli mánaða. Veiking krónu er líkleg til að koma fljótlega fram í vörum með mikinn veltuhraða eins og mat- og drykkjarvörur. Tölfræðilíkanið okkar gerir ráð fyrir að matarkarfan hækki um 1,3% (áhrif á VNV +0,14%). Matarkarfan hækkaði um 1,2% í síðasta mánuði og hefur hækkað um 5,1% undanfarna 12 mánuði. Undanfarin fjögur ár hefur verð flugfargjalda hækkað í þrisvar sinnum í október. Tölfræðilíkanið gerir því ráð fyrir að flugfargjöld hækki um 6,7% (áhrif á VNV +0,12%) en taki síðan að lækka umtalsvert í nóvember. Mæling okkar á netinu bendir hinsvegar til að verðhækkunin hafi verið meiri, en þar sem líkanið hefur verið nákvæmara að spá fyrir um þróun flugfargjalda undanfarið, leggjum við traust okkar á líkanið. Verð á bensíni er talið hafa hækkað um 0,65% en verð á dísel um 2,5% (áhrif á VNV +0,03%).



Heimildir: bensinverd.is, Greiningardeild Arion banka
Heimildir: bensinverd.is, Greiningardeild Arion banka


Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka
Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Dregur úr hækkun fasteignaverðs

Gagnasöfnun okkar á ásettu verð í fasteignaauglýsingum bendir til þess að árshækkunartaktur fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu haldi áfram að lækka þó hann sé enn jákvæður. Netmælingin bendir til þess að árstaktur á verði fjölbýlis gæti hækkað á næstunni (12 mánaða breyting á ásettu verði er hærri en mæling Hagstofunnar) en að árstaktur á verði sérbýlis eigi eftir að lækka (12 mánaða breyting á ásettu verði er lægri en mæling Hagstofunnar). Ásett verð fjölbýlis hefur hækkað um 3,8% undanfarið ár og ásett verð sérbýlis um 1,9% á sama tíma og m.v. 2,7% verðbólgu í september þá nemur raunbreyting ásetts verðs fjölbýlis 1,1% og sérbýlis -0,8%. Ef skammtímaverðbólguspá Greiningardeildar gengur eftir (+3,6% í árslok) og 12 mánaða taktur húsnæðisverðs á höfuðborgarsvæðinu helst óbreyttur, þá nemur raunhækkun ásetts verðs fjölbýlis 0,2% en sérbýlis -1,6% í árslok. Hækkun á verði húsnæðis á landsbyggðinni virðist enn vera mikil og mæling okkar á ásettu verði í fasteignaauglýsingum bendir til að árstakturinn þar sé 14%. Í mánaðarlegu verðbólguspánni gerum við heilt yfir ráð fyrir að reiknuð húsaleiga (fasteignaverð) hækki um 0,33% (áhrif á VNV +0,07%) eða 4% á ársgrundvelli.



Heimildir: fasteignir.is, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka
Heimildir: fasteignir.is, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Heimildir: fasteignir.is, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka
Heimildir: fasteignir.is, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Heimildir: fasteignir.is, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka
Heimildir: fasteignir.is, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Bráðabirgðaspá:

Innfluttar vörur vega rúmlega 30% í vísitölu neysluverðs. Síðan í lok ágúst hefur gengisvísitala krónunnar veikst um 7,3% og þegar þetta er skrifað er stundargengið nú 3,2% veikara en meðalgengið síðan í lok ágúst. Ef krónan helst óbreytt þá bendir skammtímalíkanið okkar til þess að ársverðbólga í lok árs verði 3,9% en ef krónan styrkist í þessum mánuði og nær sama gildi og í byrjun ágúst og helst þar út árið, þá ætti árstaktur verðbólgunnar í lok árs að nema 3,5%. Í síðustu verðbólguspá okkar þá gáfum við okkur sambærilegar forsendur og nam væntur árstaktur verðbólgunnar í lok árs þá 3,1% en síðan þá hefur krónan bæði veikst meir og mánuði styttra er í áramótin. Sést á þessu dæmi vel hversu líkanið (og verðbólgan) er næm fyrir þróun krónunnar.

Við teljum að árstakturinn fari yfir 3% í nóvember nema að eitthvað mikið breytist. Það er verðbólga meiri en hagspá okkar gerði ráð fyrir, sem birt var í byrjun ágúst. Samkvæmt þeirri spá færi verðbólgan í 3% í lok árs 2018 en tæki síðan að aukast enn frekar þegar líða tæki á árið 2019. Þá gerðum við ráð fyrir að krónan myndi vera stöðugri framan af en síðan að veikjast þegar líða tæki á árið 2019. Verðbólguþróun næstu mánuði (bráðabirgðaspá síðasta mánaðar birt í sviga):

  • Nóvember 0,25% (0,15%): Flugfargjöld lækka en annars rólegur verðbólgumánuður

  • Desember 0,6% (0,5%): Flugfargjöld hækka sem og flestir vöruflokkar

  • Janúar -0,2%: Vetrarútsölur


Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka
Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

______________________________________________________________________________


Greiningardeild Arion banka sendir reglulega frá sér skýrslur og spár.

Við mælum með því að þú skráir þig á póstlista hjá þeim hér.


bottom of page