top of page

Fasteignamat 2021 hækkar um 2,3%

Heildarfasteignamat á höfuðborgarsvæðinu hækkar um 2,3%, lækkar um 0,5% á Suðurnesjum, hækkar um 0,3% á Vesturlandi, um 8,2% á Vestfjörðum, um 6,5% á Norðurlandi vestra, 1,9% á Norðurlandi eystra, 3,5% á Austurlandi og um 2,4% á Suðurlandi.

Litlar breytingar hafa orðið á matssvæðum bæði á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggð á milli ára. Af einstaka bæjarfélögum hækkar heildarfasteignamat mest á Ísafirði eða um 11,2%, um 8,8% í Akrahreppi og um 8,5% í Blönduósbæ og Tálknafirði.


Samanlagt mat íbúða á öllu landinu hækkaði um 2,3% á milli ára og er alls 6.557 milljarðar króna, þar af hækkaði sérbýli um 2,3% á meðan fjölbýli hækkaði um 2,4%.


Fasteignamat atvinnuhúsnæðis hækkaði um 1,9% á landinu öllu; um 1,7% á höfuðborgarsvæðinu en um 2,2% á landsbyggðinni.


Fasteignamat sumarhúsa fyrir árið 2021 er óbreytt á milli ára.

Fasteignamat er reiknað út með ýmsum breytum til að finna líklegt virði fasteigna en endurspeyglar ekki alltaf söluverð fasteigna. Smelltu hér til að finna söluverð eignar.

Hvernig er fasteignamat reiknað? Um 97,9% af öllu íbúðarhúsnæði er metið með markaðsaðferð. Safnað er upplýsingum úr nýlegum kaupsamningum ásamt upplýsingum úr fasteignaskrá um eiginleika fasteigna og tölfræðilegar aðferðir notaðar til að útbúa líkan sem lýsir verði eignar út frá eiginleikum hennar.

Tölfræðivinnsla fyrir fasteignamat íbúðarhúsnæðis 2021 byggðist á gögnum um kaupsamninga sem gerðir voru frá 1. janúar 2014 til 31. mars 2020 og er gagnasafnið aðgengilegt á vef Þjóðskrár Íslands. Í meginatriðum er um að ræða alla samninga um kaup á fullbúnu íbúðarhúsnæði með nokkrum skilyrðum. Tekið er tillit til: - Staðsetning eignar. - Flatarmál eignar eftir flokkum - Fjöldi hæða í húsi. Dæmi: Íbúð á 4. hæð (aðalhæð) og 5. hæð í 10 hæða blokk.

- Byggingarár/afskriftarár. Afskriftarár er hagrænn aldur húsnæðis sem er ekki endilega sá sami og byggingarár.

- Byggingarefni útveggja

- Notkunarflokkun. Við flokkun á íbúðarhúsnæði er stuðst við íslenska fitjuskrá fyrir flokk 200 (Mannvirki)

- Fjöldi herbergja

- Ummál eignar.

- Upplýsingar um hvort bílskúr, bílskýli eða bílastæði tilheyri eigninni.

- Upplýsingar um fjölda hreinlætistækja (baðker, sturta, salerni).

- Upplýsingar um hvort lyfta sé í húsi

- Upplýsingar um hve margar íbúðir eru í húsi.

- Upplýsingar um fjölda íbúða á hæð.

Áður en líkön eru útbúin eru öll gögn tímaleiðrétt, þ.e. söluverð leiðrétt miðað við tíma. Það er gert til þess að geta borið saman eldri og nýrri samninga. Metin er hrein breyting á verði, þ.e.a.s. breyting sem er óháð eiginleikum eigna.

Nánari upplýsingar: Fasteignamatsskýrsla 2021 frá Þjóðskrá Íslands (120 blaðsíður)

Fasteignamat 2021
.
Download • 569KB

Upplýsingar frá Þjóðskrá Íslands
Comments


bottom of page